146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:50]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um er að ræða eitt stærsta pólitíska mál ríkisstjórnarinnar sem við erum að ræða og er vegvísir inn í þá pólitík sem mun ráða för á næstu árum. Ég mun skipta ræðu minni í þrennt. Í fyrsta lagi mun ég ræða almennt um ríkisfjármálaáætlunina og víkja að málum eins og skorti á gagnsæi og sviðsmyndagerð og svo misvísandi skilaboðum sem felast í áætluninni. Í öðru lagi mun ég fjalla um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattinum og hversu illa það mál er allt reifað í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni og í þriðja lagi ætla ég að fjalla um það gríðarlega metnaðarleysi sem ríkir í framlögum til háskólastigsins.

Mikill skortur er í gagnsæi á vinnubrögðum sem snýr að því að ekki hafi verið miðað við grunngildi laga við gerð áætlunarinnar. Það er ekki ljóst eins og fram kemur í áliti fjármálaráðs hvort fjármálastefnunni sé fylgt eftir í ríkisfjármálaáætluninni eða hvort ríkisfjármálaáætlunin fylgi fjármálastefnunni. Auðvitað er það alveg með ólíkindum að það sé ekki skýrara en þetta þegar við erum að ræða um svona stórt mál vegna þess að megintilgangur þess að fara í fimm ára ríkisfjármálaáætlun og stefnuna er auðvitað að meiri fyrirsjáanleiki sé en verið hefur.

Hugmyndafræðin á bak við fjármálaáætlunina gengur út á það að útgjaldarammarnir sem settir eru séu settir yfir 34 málefnasvið til næstu fimm ára og í framhaldinu er svo lagt fram fjármálafrumvarp til hvers árs. Öll stefnumótunin gengur út á það að samþykkja ramma fyrir hvern málaflokk. Hins vegar er óljóst, eins og fram hefur komið nánast hjá öllum þingmönnum sem tekið hafa til máls, hvað hver eining fær til rammans. Því er mjög erfitt fyrir löggjafarvaldið að átta sig á hver framlög eru til einstakra stofnana.

Við höfum fengið á fund okkar umboðsmann Alþingis. Hann hefur reifað verulegar efasemdir um þetta verklag, þ.e. hvort hreinlega sé búið að taka frá löggjafanum það vald. Þetta er eitthvað sem verður að skoða betur. Ég held og ég er eiginlega sannfærð um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi líka áhuga á því að fá betri botn í þetta.

Varðandi annað mál sem fjármálaráð nefnir, og ég tel að mjög brýnt sé að fara yfir, snýr að svokallaðri stefnuhermun og sviðsmyndaspá. Það er ljóst að betra samspil verður að vera á milli spágerðar og stefnu. Þjóðhagsspár Hagstofunnar sem lagðar eru til grundvallar fjármálastefnunni geta ekki sagt til um hvaða áhrif ný fjármálastefna mun hafa á efnahagsþróunina og hagspár. Stefnuhermun og sviðsmyndaspá þarf að framkvæma til að hægt sé að segja til um framvindu fjármálastefnunnar. Engin slík vinna er nú til staðar í stjórnkerfinu og æskilegt er að mínu mati að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari í verkefnið til þess að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í stefnumótun. Þannig fái ráðuneytið aukna pólitíska ábyrgð er varðar lykilákvarðanir og hvaða efnahagslegu þýðingu þær hafa.

Í raun er það með algjörum ólíkindum að fjármála- og efnahagsráðuneytið, efnahagsskrifstofan, hafi ekki þau tæki og tól til að skoða hvaða efnahagslegu áhrif t.d. breytingar á virðisaukaskattinum hafa. Þetta er gert með einhverju móti. En til þess að við fáum betri botn í það og skiljum hvaða þjóðhagslegu áhrif svona breytingar hafa þarf ráðuneytið að vera mun betur undir það búið að fara í svona greiningu. Ég er sannfærð um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er sammála því.

Annað sem ég vil nefna eru misvísandi skilaboð er varða aðhaldsstig ríkisfjármála hjá stjórnvöldum. Samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni fer aðhaldsstigið vaxandi og nefnir fjármálaráð að það sé ekki leiðrétt fyrir hagsveifluna eins og þetta er lagt fram þar. Mun æskilegra væri að miða við frumjöfnuð til að meta aðhaldsstigið eins og Seðlabanki Íslands hefur bent á. Það er ámælisvert að mínu mati að stjórn peningamála og ríkisfjármála sé ekki sammála í því að meta aðhaldsstigið. Ég þori eiginlega að fullyrða að það eru mjög fá ríki annars staðar í veröldinni þar sem ríkisfjármálin og peningastefnan eru ekki sammála um hvernig eigi að meta aðhaldsstigið. Þetta er í raun og veru algerlega með ólíkindum. Enn og aftur kemur það fram að framsetning ríkisfjármálaáætlunar er óskýr og gagnsæi skortir þegar svona grundvallaratriði eru ekki á hreinu.

Mig langar aðeins að vitna í umsögn fjármálaráðs, með leyfi forseta:

„Frumjöfnuður er mælikvarði á eftirspurn í efnahagslífinu og Seðlabankinn nefnir í þessu samhengi hvernig ráðstöfun af bættum fjármagnsjöfnuði til frumjafnaðar á tímabilinu yrði að greina með tilliti til eftirspurnaráhrifa. Svipuð sjónarmið koma fram í umsögn Seðlabankans um fjármálastefnu 2017–2022. Á sama tíma er fjármálaáætlunin með meginþunga í umfjöllun um afkomu og litið er fram hjá framangreindum breytum við greiningu á aðhaldsstigi og engin tilraun gerð til sveifluleiðréttingar.“

Það er einnig bagalegt að ólíkir greiningaraðilar, nefnir fjármálaráðið, „notast við mismunandi mælikvarða á breytingar í aðhaldsstigi. Því þarf að efla samtalið milli aðila sem koma að mótun fjármála- og peningamálastefnu. Þannig þarf þekkingarflæðið ekki einungis að vera milli aðila sem framkvæma greiningu, sviðsmyndir og stefnuhermun í opinberum fjármálum og þeirra sem framkvæma grunnspána. Þar að auki þarf líka virkan vettvang þar sem aðilar peningamála og ríkisfjármála ráða ráðum sínum. Það á ekki bara við um forráðamenn beggja viðfangsefna heldur ekki síst greiningaraðilana sjálfa þannig að ólík sjónarmið mætist reglulega. Fjármálaráð hefur skilning á að í ljósi smæðarinnar verður að sníða stakk eftir vexti við spágerð og greiningu en það er óásættanlegt að ekki sé tryggt að öflugt þekkingarflæði eigi sér stað og að innviðirnir styðji við slíkt. Leitast mætti við að virkja háskóla- og fræðasamfélagið og fleiri aðila í þessu efni. Með gagnsæjum líkönum, ólíkum sviðsmyndum, stefnuhermun, óvissugreiningu og opinni umræðu telur fjármálaráð að stuðla megi að auknum stöðugleika, gagnsæi, sjálfbærni, festu og varfærni í opinberum fjármálum.

Í ofangreindu samhengi verður heldur ekki litið fram hjá hlut sveitarfélaganna. Umfang þeirra í opinberum fjármálum fer sífellt vaxandi og tryggja þarf að tekið sé nægjanlegt tillit til áhrifa þeirra í þessu samhengi svo eftirspurnarstýring opinberra fjármála verði virkari.

Einnig vill fjármálaráð benda á að ákveðinnar einsleitni gætir í líkönum og spágerð á Íslandi nú um stundir.“

Virðulegi forseti. Við fengum aðila frá fjármálaráði á fund efnahags- og viðskiptanefndar og þeir sýndu hvernig þjóðhagsspáin hjá Hagstofunni og Seðlabankanum lítur út. Það er alveg ofboðslega lítill munur, það er um núll komma núll eitthvað prósent á milli ára, en svo þegar verið er að endurskoða þjóðhagsspána þá munar kannski tveimur eða þremur prósentum. Þarna þarf auðvitað aðeins betri gagnrýnni hugsun eða kannski ólík líkön til þess að meta stöðuna.

Virðulegi forseti. Næst langar mig til að fara yfir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á virðisaukaskattinum. Í fjármálaáætlun eru kynntar breytingar á virðisaukaskattskerfinu þar sem gistiþjónusta og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi færist úr neðra þrepinu í almennt þrep, þ.e. úr 11% í 24% hinn 1. júlí 2018. Eftir þessar breytingar má fullyrða að það sé staðreynd að ferðaþjónustan á Íslandi beri eina hæstu skatta í samanburði við samkeppnislöndin. Ljóst er að þetta mun hafa áhrif á greinina og sér í lagi ef litið er til þess að krónan hefur verið að styrkjast verulega á síðustu mánuðum. Ef ekkert verður að gert mun hún halda áfram að styrkjast vegna þess að það vill þannig til að nú er maí og stóra ferðamálasísonið, afsakið að ég skuli sletta, virðulegi forseti, er enn eftir.

Í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 28. mars 2017 er bent á mikilvægi þess að rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar sé samkeppnisfært og atvinnugreinin sjálf sé sjálfbær. Stjórnvöld í Danmörku hafa til að mynda ekki góða reynslu af því að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna eða að hækkun væri mun meiri en í öðrum ríkjum. Það var athyglisvert að skoða það sem gerðist í Danmörku, að áhrifin komu ekki fram fyrr en nokkrum árum síðar. Við gætum jafnvel horft fram á það líka hér á Íslandi og við viljum alls ekki horfa upp á það, virðulegi forseti, að það gerist akkúrat þegar jafnvel niðursveifla á sér stað í hagkerfinu. Ég hvet því hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til að skoða þessar breytingar enn frekar.

Virðulegi forseti. Fram hefur komið á fundum hjá efnahags- og viðskiptanefnd að engin formleg samvinna eða samráð hafi átt sér stað við samtök aðila í ferðaþjónustu. Fulltrúar frá markaðsstofum landshluta gerðu einnig verulega athugasemd vegna þessa, skort á samráði og samvinnu og að ekki væri unnið að því að efla það samtal á milli stjórnvalda og greinarinnar. Ég hef verulegar áhyggjur af því þegar ráðist er í svona stórar breytingar að stjórnvöld séu ekki opnari fyrir því að skoða og greina hvaða áhrif þetta hefur, ekki bara á greinina, heldur þjóðarbúið í heild sinni.

Annað sem ég vil nefna, virðulegi forseti, er að gert er ráð fyrir að hækkunin, framkvæmdin á henni verði 1. júlí 2018. Rekstraraðilar hafa bent á að það sé mun betra að framkvæma slíka hækkun í byrjun hvers árs. Þessu er ég algjörlega sammála og það kemur líka fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta, en þar segir:

„Breyting á virðisaukaskatti á miðju ári er ekki æskileg og við undirbúning næsta fjárlagafrumvarps þarf að leita leiða til að endurskoða þá áætlun. Athugasemdir við þetta voru gerðar í fjölmörgum umsögnum um málið og meiri hlutinn hefur skilning á þeim.“

Virðulegi forseti. Ég skil ekki að framkvæmdarvaldið ætli alfarið að gera lítið úr áliti meiri hluta fjárlaganefndar og annarra í minni hlutanum. Það sjá allir sem skoða þetta mál að það er illa reifað og það skortir algjöran metnað við framkvæmd þess.

Ég verð að segja eins og er að þetta vinnulag kann ekki góðri lukku að stýra. Ég held að það sé mjög bagalegt fyrir ríkisstjórnina að í fyrstu fimm ára ríkisfjármálaáætluninni sé ekki vandað betur til verks en raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Það má líka segja að um sé að ræða landsbyggðarskatt, þar sem dvalartími ferðamanna er þegar farinn að styttast og má leiða að því líkur að umsvifin á landsbyggðinni minnki vegna þessa. Það er mikið umhugsunarefni að stjórnvöld hafi ekki greint áhrifin út frá því hvernig þessi breyting muni koma við landsbyggðina. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði reyndar að við sem höfum verið talsmenn þess að setja á komugjöld, það væri raunverulegur landsbyggðarskattur.

Mig langar svolítið að spyrja hann og þarf að gera í framhaldinu af þessari umræðu hvernig hann fái það út að komugjöld þurfi að vera 6–8 þús. kr. á miðann. Það snýr náttúrlega auðvitað að því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að lækka skatta í mikilli uppsveiflu. Mér finnst þetta eiginlega með ólíkindum. Ég verð að segja að áður en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í pólitík þá taldi ég að hann væri betur læs á hagkerfið en raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Við í minni hlutanum og í Framsóknarflokknum höfum talað fyrir því að mun skilvirkara væri að setja á nýtt gjald á ferðamenn við komu til landsins. Slíkt gjald getur verið hóflegt og getur skilað 3–5 milljörðum árlega í ríkissjóð. Við teljum jafnframt að tengja þurfi gjaldtökuna við stýringu ferðamanna, því að þannig er hægt stýra straumnum mun frekar en að fara í þessa almennu aðgerð. Hægt væri að gera þetta þannig að nefna þetta til að mynda komugjald, náttúrugjald, farþegagjald eða lendingargjald, og hægt væri að hafa það líka mismunandi eftir flugvöllum og/eða árstíðum.

Virðulegi forseti. Það sem hefur verið að eiga sér stað og varðar ferðaþjónustuna er að menn hafa viljað auka fjölda ferðamanna í janúar og febrúar. Það mætti t.d. hafa náttúrugjaldið eða komugjaldið mjög hóflegt á þeim tíma og hækka það svo þegar mikil eftirspurn er eftir að komast til Íslands. Þannig erum við að stýra þessu.

Svo held ég líka að það væri mun betra og farsælla að fara í heildarendurskoðun á skattkerfinu, ekki fara í þetta svona tilviljanakennt og gera það í mikilli ósátt og líka þannig að framkvæmdin á því sé mjög bagaleg eins og raun ber vitni. Þetta er allt svo óskilvirkt og ruglingslegt.

Virðulegi forseti. Næst langar mig til að fara í menntamálin og lýsa því yfir að stefnan er háskólastigið varðar er algjörlega óásættanleg. Ljóst er að ein af stóru áskorunum fram undan er að Ísland sé samkeppnisfært samfélag og næg tækifæri séu fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum og að fjölbreytt starfsval sé í boði. Við viljum að hagkerfið okkar skapi vel launuð störf og velferðarsamfélagið okkar dafni og vaxi. Ég hef áður vakið máls á þessu þegar við ræddum fjármálastefnuna. Ljóst er að menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld þeirra. Þær þjóðir sem leggja einna mest rækt við menntun og þekkingu vegnar einna best til lengri tíma litið. Þess vegna viljum við að hér séu samkeppnishæfir háskólar sem geta búið framtíð landsins undir þær áskoranir sem fram undan eru og geti þannig eflt íslenskt samfélag.

Virðulegi forseti. Af hverju er ekki verið að fjárfesta nægilega í háskólastiginu? Hvernig stendur á því að hér sé ríkisstjórn sem er ekki tilbúin til þess að fjárfesta í framtíðinni? Samkvæmt áætluninni er nánast engin aukning í framlögum frá árinu 2019–2022. Aukningin á þessu fimm ára tímabili er í kringum 1,3%, meðan það er mun meiri hagvöxtur.

Virðulegi forseti. Það skortir alla framtíðarsýn í málefnum háskólastigsins og má í raun og veru segja að hér sé um ákveðna afturför að ræða. Í aðdraganda kosninganna var algjör einhugur á meðal stjórnmálaflokka á Íslandi um að stefnt skyldi að því að ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu hvað varðar fjárframlög á hvern háskólanema.

Ríkisfjármálaáætlunin er ekki í samræmi við fyrirheit kosninganna og er víðs fjarri frá stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu og Norðurlandameðaltalinu árið 2020. Það er í raun með algjörum ólíkindum að sjá þessa ríkisfjármálaáætlun þar sem þetta metnaðarleysi er við lýði. Ljóst er að miðað við þessa áætlun og óbreyttan nemendafjölda á háskólastiginu mun Ísland seint ná þessu OECD-meðaltali, hvað þá Norðurlandameðaltalinu. Samkvæmt rektor Háskóla Íslands er það eina leiðin til að ná þessum meðaltölum miðað við þá áætlun að fækka nemendum á háskólastiginu. Ég spyr þingheim: Er það það sem við viljum? Viljum við virkilega fækka háskólanemum? Er það framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar?

Að auki er Hús íslenskra fræða í áætluninni sem framlag til háskólanna. Þannig að umtalsverður hluti þessarar litlu aukningar fer til byggingar Húss íslenskra fræða fyrstu árin. Það er ekki er gert ráð fyrir hækkun framlaga til háskólanna fyrr en eftir að húsið hefur verið reist árið 2020.

Virðulegur forseti. Ég hef áður sagt hér að um ákveðna blekkingu sé að ræða, þ.e. að hafa þessa fjárfestingu með, því án hennar er aukningin til háskólastigsins nánast engin.

Það er annað sem maður veltir fyrir sér, hvort fimm ára ríkisfjármálaáætlunin sé í raun í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.“

Einnig segir í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta:

„Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.“

Ég spyr: Hvers vegna er svona mikið ósamræmi í stjórnarsáttmálanum og fimm ára ríkisfjármálaáætluninni? Ég held að þetta komi öllum kjósendum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og líklega Sjálfstæðisflokksins líka verulega á óvart. Ég er sannfærð um að ef menn hefðu kynnt þessa fimm ára ríkisfjármálaáætlun með þessa framtíðarsýn hefðu viðkomandi stjórnmálaflokkar fengið algjöra falleinkunn í kosningunum.

Virðulegi forseti. Til að draga saman athugasemdir mínar vil ég í fyrsta lagi nefna að auka þarf allt gagnsæi og fjölga sviðsmyndagerð svo misvísandi skilaboð komi ekki fram í þessari áætlun. Í öðru lagi er afar brýnt að endurskoða fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattinum og að lokum og í þriðja lagi verður að vinda ofan af þessu metnaðarleysi sem ríkir í framlögum til háskólastigsins.