146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:21]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þær eru mjög góðar. Ég ætla að nefna eitt dæmi um sviðsmyndagreiningu og af hverju ég held að þessi hækkun á virðisaukaskattinum sé svona vanreifuð og vanhugsuð. Ef við værum með almennilega sviðsmyndagreiningu þá held ég að það væri mun sanngjarnara gagnvart þingheimi og okkur sem erum að meta ríkisfjármálaáætlun ef við hefðum hreinlega séð hvernig komugjöld koma út og hver áhrif þeirra eru á hagkerfið og hvernig þessi hækkun skatts á ferðaþjónustuna kemur út og svo lækkun á virðisaukaskattinum.

Strax er kominn einhver ófyrirsjáanleiki í áætlunina, þ.e. við vitum ekki hvort það sé pólitísk eining um þetta, við vitum ekki í raun og veru hvort hagkerfið muni leyfa það að við lækkum svo virðisaukaskattinn. Ég veit að margir aðilar í ferðaþjónustunni eru mjög efins um að lækkunin muni eiga sér stað miðað við þann kraft sem er í hagkerfinu, þannig að allt er þetta eitthvað svo ruglingslegt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ef hann hefði til að mynda farið út í svona sviðsmyndagreiningu varðandi komugjöldin þá er ég eiginlega sannfærð um að það hefði sýnt að það væri mun einfaldari aðgerð og mun betri stýring sem myndi felast í því fyrir ferðaþjónustuna. Ég held að allt málið væri mun betur undirbúið ef menn hefðu nýtt sér slík tæki og tól. Það er ekki bara við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að sakast, ég tel að við hefðum átt að vinna að því í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég mun svo koma betur að því er varðar allt erlenda innflæðið sem kemur í gegnum þjónustujöfnuðinn í svari mínu á eftir.