146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og bíð spennt eftir hinu. Ég ætla aðeins að halda áfram með sviðsmyndagreininguna og ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði. Við kölluðum sérstaklega eftir slíkri greiningu í fjárlaganefndinni og vildum fá að sjá útkomuna, ekki bara hvað þetta mál varðar heldur ýmislegt annað. Ég ætla vissulega ekki að gera lítið úr því að við erum í ferli sem við erum að þróa. En þegar lagðar eru til svo viðamiklar breytingar þá verðum við auðvitað að átta okkur á því hvernig þær koma út.

Mig langar líka að koma aðeins inn á skólakerfið sem þingmaðurinn talaði um, en hér er gert ráð fyrir og meiri hluti fjárlaganefndar talar um að leggja einmitt áherslu á gæði í stað vaxtar. Erum við að tala um inntökupróf eða erum við að tala um fækkun nemenda? Þar verða fulltrúar meiri hlutans að vera vissir um hvað þeir eru að gera.

Svo segir í nefndarálitinu að það eigi að endurskoða aðhaldskröfuna á framhaldsskólana. Það er lagt til að viðbótarfé sem háskólastiginu var úthlutað við fjárlagagerðina 2017 verði haldið áfram í fjárlögum. Getur þingmaðurinn ekki verið mér sammála um það að akkúrat á þessu hefðum við þurft að fá einhverja greiningar? Hvaðan á að taka þessa fjármuni? Hvaða málefnasvið eða málefnaflokkur innan þessa sviðs er aflögufær? Mér finnst það vanta. Það á ekki að stækka rammana, það á hvorki að bæta við né auka tekjur eða auka útgjöldin, heldur á að halda þeim innan rammanna. En hver er aflögufær? Mér finnst það vera afar mikilvægt.

Þingmaðurinn ræddi um að stærsti hlutinn væri einmitt bygging Húss íslenskra fræða. Þá vil ég segja að blekkingin sem sett er hér fram er sú að framlag Happdrættis háskólans er með í tölunni sem sýnir auðvitað, þegar það er dregið frá, að beint framlag ríkissjóðs er töluvert minna á þessu ári sérstaklega, hvað þá á því næsta, (Forseti hringir.) en ríkisfjármálaáætlunin gefur til kynna.