146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé andsvarið. Ég hef á tilfinningunni að það muni reynast mér auðveldara að finna upp eilífðarvélina en að finna út úr því hvernig standa eigi við þau loforð og fyrirheit sem gefin voru í stjórnarsáttmálanum. Kannski voru þetta bara stefnumál eða áherslur. Það má vera. En jú, orkuskipti eru angi af brýnasta máli okkar tíma, angi af umhverfismálum þar sem við erum nú að gyrða okkur í brók. Hv. þingmaður nefndi skógrækt áðan. Við fengum fulltrúa skógræktar á okkar fund í umhverfis- og samgöngunefnd. Við fengum líka fulltrúa frá Landgræðslunni á okkar fund þar sem menn kvörtuðu sáran undan því að lítið fé væri aflögu til þeirra málaflokka.

En það er tilfellið að þetta eru mjög svipaðar tölur sem ætlaðar eru til umhverfismála næstu árin. Því miður. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir 16 milljörðum og 583 milljónum. Svo lækkar þessi upphæð árið 2019, lækkar enn meira árið 2020, hækkar lítillega (Forseti hringir.) árið 2021 en nær þó ekki þeirri upphæð sem er árið 2018. Þannig að svarið er nei. Ég veit ekki hvernig hægt verður að standa við þessi áform, þessi loforð.