146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á eilífðarvélina. Manni heyrist stundum að hæstv. fjármálaráðherra hafi fundið upp einhverja slíka vél. Í það minnsta virðist hann gera ráð fyrir að hagvaxtarskeiðið sé eilíft og þar hafi land og þjóð dottið niður á einhvers konar eilífðarvél.

Hv. þingmaður fór víða í ágætri ræðu sinni. Við sitjum saman í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hann kom aðeins inn á umhverfismálin. Mig langar líka að spyrja út í samgöngumálin. Þar fengum við líka gesti. Mín tilfinning var sú við hverja gestakomuna á fætur annarri að það vissi í raun enginn í hvað stefndi í sínum málaflokki. Við erum með samgönguáætlun þar sem virðast vera einhvers konar valkvæð verkefni. Við sitjum tveir ásamt öðrum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Hefur hv. þingmaður einhverja tilfinningu fyrir því hvað gera eigi í samgöngumálum á næstunni? Verður staðið við samgönguáætlun? (Forseti hringir.) Getur hann hjálpað mér að lesa út úr þessu varðandi það?