146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:57]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvarið. Það var nú ekki svo gott að umhverfis- og samgöngunefnd fengi að sjá mikið á spilin, því er auðsvarað. Gagnsæið var ekki fyrirferðarmikið í starfi þeirrar nefndar.

Hv. þingmaður minntist á starfsnámið og hvort einhverjar vísbendingar væru um að ýtt yrði undir það. Ég get ekki séð slíkar vísbendingar í fjármálaáætlun. Ég hef hins vegar séð vísbendingar í öðru máli sem tengist starfsnámi. Það snýr að Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Tækniskólanum. Mér sýnist nefnilega að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé á flótta undan starfsnáminu og sjái þann kost vænstan að koma því í hendur einkaaðila sem muni sjá um að þróa það og hlúa að því, sem þyrfti svo sem ekkert að vera slæmt, alls ekki, ef það væri að baki einhver greining um að það væri raunverulegur og góður kostur, eitthvað sem skipti máli og væri til bóta og einhver stefnumörkun, stefnumótun, hefði átt sér stað.