146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans ágætu ræðu, en vil vekja athygli á því að miðað við umtal sem hér var fyrir stuttu sakna ég þess að margir fjárlaganefndarmenn séu ekki viðstaddir umræðuna, sérstaklega þeir sem fóru hér mikinn áðan í fundarstjórn forseta. En hæstv. forseti, ég geri bara engar athugasemdir við það þótt þeir séu fjarstaddir. Þetta er allt saman harðduglegt fólk og fylgist vandlega með umræðu og tekur þátt í henni eins og við öll reynum að gera.

Hv. þingmaður, sem talaði hér áðan, skrifaði mjög áhugavert nefndarálit, umsögn, út úr nefnd sinni sem ég las af mikilli athygli. Þótt ég áttaði mig ekki alveg á hvaða tengingu það hefði við fjármálaáætlun varð mér samt hugsað til þingmannsins þegar ég sá forsíðu Bændablaðsins í dag og sá að þingmaðurinn hefði ratað inn á að tala um mikilvægt mál sem ég held að við ættum að taka mjög alvarlega. Ég er ekki að gera þetta að umtalsefni til að hafa það að háði og spotti, nema síður sé. Ég sé nefnilega að með þessu hefur tilgangur þess að senda málið til umsagnar í fleiri nefndum skapað skemmtilega vinkla sem við skulum veita fulla athygli.

Það sem þingmaðurinn rakti líka rækilega í ræðu sinni var ógagnsæið og framsetningin sem mörgum hefur orðið tíðrætt um. Þá langar mig að spyrja þingmanninn, því að nú er t.d. búið að dreifa hér breytingartillögu frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, eða fulltrúa hennar í fjárlaganefnd, sem er nú ekkert óskaplega gagnsæ: Hefur hann kynnt sér þessa breytingartillögu? Þar kemur m.a. fram að það sé hreinlega stofnað nýtt málefnasvið um hvernig eigi að dreifa mörg hundruð milljörðum. Hvað finnst þingmanninum um gagnsæi þeirrar breytingartillögu?