146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessar tillögur byggjast á því að lýsa okkar vilja, Vinstri grænna, þegar við komumst til valda, sem verður vonandi mjög fljótt. Þarna viljum við afla tekna til að byggja upp gott velferðarsamfélag. Þá þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Sumt þekkjum við vel, eins og þrepaskipt skattkerfi, sem hefur verið rannsakað víða og það hefur sýnt sig að það felur í sér mesta tekjujöfnun. Auðlegðarskattur er þekktur vítt og breitt um heiminn og við þekkjum hann hér. Líka kolefnisgjöld. Ég held að flestir séu sammála um að það sé eðlilegt miðað við þær miklu loftslagsbreytingar sem við stöndum frammi fyrir. Fjármagnstekjuskattur hefur verið til staðar hér og erlendis. (Forseti hringir.) Allt þetta eru góðir kunningjar sem kæmu okkur áfram (Gripið fram í.) í því að byggja upp velferðarsamfélag. Menn halda oft að þeir geti byggt velferðarsamfélag á froðu. En þessi fjármálaáætlun sýnir að það þarf að afla tekna.