146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel það mjög brýnt. Fjármagnaðar voru heilsugæslustöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu, í einkarekstri að mér skilst, en heilsugæsla á landsbyggðinni hefur mátt búa við fjárhagserfiðleika. Það þarf að byggja hana upp og líka þessi sjúkrahús sem eru vítt og breitt um landið. Þar sem ég þekki best til, eins og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, eru mörg tæki orðin allt of gömul. Í fjármálaáætlun er sullað saman tölum um tækjakaup, viðhald, rekstur og nýfjárfestingar og þar eru ekki nema 338 millj. kr. í raunaukningu árið 2018 til sjúkrahúsaþjónustu. Þetta er auðvitað langt frá því sem hefur verið talað um hér af stjórnarliðum, enda segir það sig sjálft að það fagfólk sem er í heilbrigðisþjónustu veit hvar skórinn kreppir og talar þannig.