146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:22]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kollegi minn þakka ég góða og skemmtilega ræðu áðan. Mig langar aðeins að halda áfram. Ég sat við tölvuna í umræðunni og fyrirspurnum áðan. Verið var að tala um breytingartillögu frá 1. minni hluta fjárlaganefndar, sem leggur hana fram, um að hækka skatta og gjöld um 334 milljarða. Hann býr til nýtt málefnasvið upp á 295 milljarða. Það er mikil aukning að raungildi en við vorum mikið gagnrýnd fyrir það núna um áramótin hvað við hækkuðum útgjöld ríkisins mikið, um 8,5% að raungildi milli ára. Þetta er sett fram án ábyrgðar, ég var bara í excel-skjali núna: Ríkisstjórnin á næsta ári er með tölur upp á 4–5,7% hvert ár á þessu bili næstu árin. Þannig að þetta er gríðarleg upphæð. Ef við leggjum þetta saman við skattahækkanirnar sem 1. minni hluti leggur fram erum við að tala um að þetta verði (Forseti hringir.) á bilinu 11,5–12,5% á milli ára, það sem verið er að leggja fram. Telur þingmaðurinn að íslenskt efnahagslíf og samfélag þoli slíkar hækkanir í útgjöldum?