146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég held að það gæti orðið að mörgu leyti mjög skemmtileg umræða, að taka hana svolítið lengra, þegar maður áttar sig á svona tölum bara með því að setja í excel-skjal og reikna í tíu mínútur, hvers konar upphæðir við erum að tala um í prósentum. Ef við erum að tala um efnahagslegar katastrófur á Íslandi, sögulegar, að ætla sér að bæta milli einstakra ára, 2018–2019, samtals upp á 11,7% á milli ára að raungildi, síðan 12% og 12,2% milli ára. Það eru tölur sem ég held að væri mjög áhugavert að setja inn í öll líkön og slíka þætti. Við þróum þá umræðu væntanlega á föstudaginn og förum þá lengra með hugmyndina.

Ég er hins vegar sammála þegar þingmaðurinn kemur inn á greiningar eftir landshlutum, að taka til athugunar með framkvæmdastöðuna og annað. Þetta höfum við rætt í fjárlaganefnd, að koma að þeirri vinnu, og þann vilja að fara mun lengra í þeim greiningum. Það væri (Forseti hringir.) áhugavert að ræða skattheimtuna.