146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Okkur sem þjóð er ekki hægt að setja alltaf inn í eitthvert excel-skjal. Það er bara þannig. Skattheimta er mjög misjöfn í þessu landi. Mikill ójöfnuður og misskipting er til staðar. Ég talaði við mann sem ég hitti á Kaffivagninum, sjómann frá Vopnafirði í morgun. Hann sagðist hafa 270 þús. kr. á mánuði með því að hafa greitt í lífeyrissjóð alla ævi. Af þessum 270 þús. kr., sem er samanlagt lífeyrissjóður og ellilífeyrir, væru teknar 70 þús. kr. í skatt. Er þetta eðlilegt? Að verið sé að skattleggja fólk sem hefur ekki meiri tekjur en þetta svona mikið? Þegar menn taka ekki eðlilega skatta, auðlindaskatta, hátekjuskatta, hærri veiðigjöld á stórútgerðinni o.s.frv.? Er þetta eðlilegt? Það er bara mjög mikill ójöfnuður. Fjármunirnir halda áfram að sópast þangað sem þeir eru fyrir til þessa háa hlutfalls (Forseti hringir.) fólks í landinu sem á eignir, en hinir eiga að bera allar byrðarnar og reka þetta samfélag. Það er bara ekki ásættanlegt.