146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta skýrir sig nefnilega ekki í þessu yfirliti, því miður, hv. þingmaður. Ég ætla bara að endurtaka spurninguna: Hvaða skatta er verið að leggja á þegar kemur að vöru og þjónustu, 13,5 milljarða á hverju ári frá árinu 2019–2022? Það hlýtur að vera einhver ákveðinn skattur sem þið hafið í huga. Ég vil bara fá upplýsingar um það. Ég vil einnig fá upplýsingar um hvaða 19 milljarða er verið að tala um á fyrstu þremur árunum og síðan 20 og 21 milljarð á seinni tveimur árunum í auknar eignatekjur? Það hlýtur að liggja fyrir. Þingflokkur Samfylkingarinnar hlýtur að hafa markað þetta með skýrum hætti þannig að við áttum okkur á hversu raunhæfar þessar tillögur eru. Ég er alveg til í að ræða það að það sé möguleiki á að auka eignatekjur. Ég sé það að vísu ekki, en það er gott að vita hvaðan þær eiga að koma (Forseti hringir.) og með hvaða hætti.