146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:53]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég hef áhuga á að ræða aðeins forgangsröðina af því að verið er að tala um breytingar og hvernig við fjármögnum þær og allt það. Það er alveg rétt, það þarf aukafjármögnun þegar verið er að bæta inn tillögum um breytingar þar sem meiri peninga vantar.

Það má líka alveg ræða forgangsröðunina í þessu af því að það t.d. kemur fram í fjármálaáætlun að helsta orsök örorku á Íslandi séu atvinnutengdir sjúkdómar. Þar má nefna hreyfi- og stoðkerfissjúkdóma auk geðsjúkdóma vegna streitu. Þarna er talað um að fólk sé að fara að detta út af vinnumarkaði vegna örorku, en á sama tíma erum við með fjármálaáætlun sem setur rosalega litla peninga í forvarnastarf. Það er ekkert horft á það. Vinnumarkaðurinn á bara að sjá um þetta allt saman. Hvergi er horft til þess hvernig við getum komið í veg fyrir (Forseti hringir.) örorku. Mögulega getum við minnkað streitu með því að stytta vinnutíma fólks. (Forseti hringir.) Mig langar bara til þess að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þá forgangsröðun sem er, hvort ekki sé hægt að (Forseti hringir.) breyta þessu með breyttri forgangsröðun og breyttri hugmyndafræði.