146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem hann dvaldi sérstaklega við málasvið velferðarnefndar. Það eru nokkrar spurningar sem mig langar að spyrja hann um þau málefni.

Í fyrsta lagi hvað varðar sjúkrahúsþjónustu. Hv. þingmaður fór aðeins yfir það í máli sínu að ekki væri fyrirsjáanlegt að þörf, brýnni þörf, Landspítalans yrði mætt hvað þá annarra sjúkrahúsa úti um land. Hann nefndi Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég vil biðja hv. þingmann að útskýra fyrir okkur hvort hann telji þá tillögu sem flokkur hans setur hér fram vera lágmarksframlag til að mæta þeirri þörf sem er í stöðunni.

Hins vegar langar mig að spyrja hv. þingmann sem gerði að umtalsefni greiðsluþátttöku sjúklinga. Það hlýtur að koma verulega á óvart að ekki sé staðið við fyrirheit um upphæð greiðsluþaksins. Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í það hvernig hann sér fyrir sér hversu háar fjárhæðir þurfi (Forseti hringir.) til að mæta því sem gefin voru fyrirheit um?