146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin.

Hv. þingmaður bendir á að það sé margt hægt að gera til að hagræða í heilbrigðiskerfinu. Ég er alveg sammála því til lengri tíma. Þess vegna hef ég lagt til breytingartillögu við síðustu tekjuáætlun um að tekinn yrði upp sykurskattur. Hún var felld þrátt fyrir ítrekuð meðmæli vísindamanna um að það skipti máli að beita skattkerfinu til neyslustýringar til að við drögum úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið. Þetta var algjörlega óskiljanleg afgreiðsla á sínum tíma að mínu viti, sérstaklega í ljósi sykurneyslu Íslendinga. En ég fagna því að mér finnst fleiri þingmenn vera að færast yfir á þennan vagn. Ég er mjög ánægð með það.

Ég vil því segja að auðvitað er hægt að hagræða til lengri tíma litið, en við erum í brýnni þörf núna. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um þá tillögu meiri hluta fjárlaganefndar að skoðað verði að setja sérstaka pólitíska stjórn yfir Landspítalann. Því að mínu viti lítur þetta út eins og meiri hluti fjárlaganefndar vilji ekki horfast í augu við (Forseti hringir.) þá þörf sem augljóslega er uppi á Landspítala og ætli að leysa þann vanda sem þar er uppi með því að setja pólitískan yfirfrakka á spítalann.