146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnina. Það er auðvitað þekkt fyrirkomulag frá öðrum löndum að veita fyrirgreiðslu að þessu leyti. Mér líst ágætlega á að skoða þetta vel, en Ísland er annars konar land en t.d. Noregur. Það verður að vega og meta hvar við ætlum að draga mörkin, hvaða svæði á að taka út sem jaðarsvæði. En ég er sannfærður um að þetta getur haft áhrif og hvatt til búsetu einkum ungs fólks úti á landi, sem er það sem við sækjumst eftir. Ég held að þegar fólk hefur sest að úti á landi muni fara vel um flesta þar og líkurnar á að það festi sig í sessi þar eru meiri en minni.