146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Að mínu mati er mjög eðlilegt að í fjármálaáætluninni séu ekki tilgreindir fjármunir í borgarlínuna, jafn mikilvægt og það verkefni er, því að ekki hefur enn náðst neitt samkomulag við sveitarfélögin. Það er vegna þess að þetta frábæra verkefni er bara ekki enn komið á þann stað. Það er að komast á þann stað núna. Hingað til hafa þetta fyrst og fremst verið greiningar- og skipulagsverkefni. Sveitarfélögin eru enn í þeim fasa og eru núna að vinna að því að breyta svæðisskipulagi og aðalskipulagi sveitarfélaganna til að taka frá rými fyrir borgarlínuna eftir að hafa unnið svæðisskipulag þar sem greindir eru kostir mismunandi samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ástæða til að ítreka að sú greining gaf skýrt til kynna að það er þjóðhagslega mun hagkvæmara fyrir okkur að ráðast í fjármögnun borgarlínunnar vegna þess að aðrir kostir (Forseti hringir.) eru einfaldlega mun dýrari og skila minni árangri.

Ég verð að fá að svara hinni spurningunni í næsta andsvari.