146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hefði svo sem ekki slegið hendinni á móti því ef einhverjir fjármunir hefðu verið áætlaðir í borgarlínuna í fjármálaáætluninni. En hún er engu að síður tilgreind þar í texta. Eins og ég sagði áðan er borgarlínan ekki komin á það stig að fyrir liggi samningur og ekki ljóst hvað ríkisvaldið mun setja í þetta stóra verkefni. En ég vona svo sannarlega að það gerist mjög bráðlega. Þess vegna ítrekum við í áliti okkar að við teljum að næst þegar fjármálaáætlun verður lögð fram verði kominn sérstakur liður í þetta verkefni.

Hvað varðar samgöngumál almennt höfum við rætt töluvert að þörf sé á enn frekari fjármunum í samgöngumál. Það er alveg ljóst. Samgönguráðherra hefur komið með áhugaverðar hugmyndir þar að lútandi, hvernig við getum fjármagnað enn frekari uppbyggingu. Við tökum undir það í nefndaráliti okkar að það sé jákvætt og gott að skoða það mál.

Hvað húsnæðismálin varðar held ég að mörg góð skref hafi verið stigin í þeim efnum. Ég hef svolítið tjáð mig um húsnæðismál úr þessari pontu. Ég vænti þess (Forseti hringir.) að við séum að ná ákveðnum árangri í þeim efnum og held að við séum að lækka kúfinn sem er í þessum málum. Það verður mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum og töluvert af því eru íbúðir á leigumarkað.