146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég verð nú að byrja á að taka fram að við Sjálfstæðismenn erum nú í meiri hluta í öllum sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi. (Gripið fram í.) Já, Kjósin er annað fyrirkomulag kosningalega séð. (Gripið fram í.) Höldum því til haga, við skulum ekki reka Kjósina úr okkar glæsilega kjördæmi. En eins og ég kom inn á í ræðu minni held ég að það séu mikil tækifæri til að bæta enn frekar samskipti við sveitarfélögin. Þau hafa verið mjög gagnrýnin á samskiptin við ríkið í langan tíma. Það er örugglega af mörgum ástæðum, að hluta til vegna þess að okkur hættir hér til að samþykkja ýmis frumvörp án þess að sjá til þess að þau séu fullfjármögnuð eða hugsa út í hörgul hvernig þau verði framkvæmd. Ég upplifði nú að gagnrýni sambandsins snerist fyrst og fremst um afkomutölurnar. Það reyndist mjög vel í sveitarstjórnarlögunum að setja skýrar fjármálareglur fyrir sveitarfélögin um afkomu þeirra. Þar er gengið enn þá lengra í lögum um opinber fjármál. Sveitarfélögin þurfa væntanlega einhvern aðlögunartíma til að (Forseti hringir.) ná því markmiði.