146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að báðar þessar spurningar gætu kallað á sérstakar umræður og það langar og skemmtilegar. Ég ætla að byrja á seinni hlutanum, en vil fyrst þakka hrósið sem ég fæ hér fyrir að vera sérfræðingur í almenningssamgöngum. Mér finnst mjög gaman þegar fólk fer í svona framtíðarpælingar, eins og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Það hefur verið í umræðunni núna í sambandi við borgarlínuna. Ég deili þeirri sýn, hér verða örugglega sjálfkeyrandi bílar í framtíðinni. Ég held reyndar að það sé svolítið lengra í það en sumir kunna að spá, en ég minni þó á að það er töluvert um að almenningssamgöngur séu sjálfkeyrandi. Kannski munum við sjá miklu meiri þróun þar en í einkabílnum. Ég held þess vegna að sjálfkeyrandi bílar muni ekki leysa af hólmi almenningssamgöngur, enda eru öll borgarsamfélög sem við horfum til að byggja upp almenningssamgöngur. Það mun vera mikið tækifæri í að fækka bílastæðum þegar kemur til almenningssamgangna og svipað fyrirkomulag, eins og hv. þingmaður lýsti áðan. Ég held að það sé góð framtíðarsýn og mjög spennandi. (Forseti hringir.) En það leysir okkur ekki undan þeirri ábyrgð að þurfa að byggja upp sérrými fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu því að það er nauðsynlegt verkefni fyrir okkur miðað við allar þær áætlanir sem sveitarfélögin hafa um fjölgun og uppbyggingu.