146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ræðu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Það er alveg rétt, gamla úthlutunarkerfið er vissulega óhæft og það nýja er sennilega skárra í gegnum ríkisfjármálaáætlun og því sem þar fylgir. En uppfyllir þetta plagg lágmarkskröfur ríkisfjármálaáætlana? Stofnanir hver af annarri telja sína hluti ógagnsæja svo undrum sætir, svo vitnað sé nú í eitt álitið. Telur hv. þingmaður að þessar stofnanir flestar hafi rangt fyrir sér? Og annað: Telur hv. þingmaður að þessi fimm talna lína sem er í lok hvers af 34 köflum áætlunarinnar, með hækkun eða lækkun á milli ára, gefi tilefni til að meta fjármögnun markmiðanna sem hún er svona hrifin af?