146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Já, ég er mjög hrifin af þessari vinnuaðferð og að við séum í framtíðarsýninni. Ég og hv. þingmaður sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd og fengum til okkar allnokkra gesti, einmitt fulltrúa stofnana sem töluðu um að það væri töluvert ógagnsæi í þessu plaggi. En ástæðan er náttúrlega fyrst og fremst sú að við erum að horfa á heildarmyndina. Við erum ekki komin inn í fjárlögin þar sem sjást fjárveitingar til einstakra stofnana. Það er kannski ekkert óeðlilegt að þær stofnanir sem hingað til hafa heimsótt þingnefndir og tjáð sig um fjárlögin séu ekki með það á hreinu hvernig þeirra málum verði háttað. Ég held að við séum að fara í gegnum svolítið breytingarferli og fjármálaáætluninni sé ekki ætlað að horfa nákvæmlega í hvað einstakar stofnanir fá heldur málefnasviðið sem slíkt, svo og hvaða markmið eru sett í því.