146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi gleymt að taka fram í svari mínu áðan að þegar stofnanir komu og heimsóttu okkur í hv. umhverfis- og samgöngunefnd var það líkt og í væntanlega flestum nefndum að enginn bað um minni pening. Flestir töluðu um að það þyrfti meira fjármagn.

Það sem hv. þingmaður fór yfir um fjárframlög til liðsins sem heitir umhverfismál í áætluninni þá eru náttúrlega framkvæmdir þar inni í. Það hafa verið gefnar útskýringar á því, ákveðin uppbyggingarverkefni eru í gangi sem svo lýkur á einhverju tímabili og þá er það fjármagn ekki að fullu inni í áætlun fyrir næsta ár enda er þá framkvæmdunum lokið. Ég get líka sagt eins og ég get sagt um ýmislegt annað, það mættu alveg vera meiri fjármunir í því. En ef ég ætla af einhverri ábyrgð að segja að ég vildi meiri fjármuni í umhverfismál þyrfti ég líka að segja hvar ég ætlaði að taka þá fjármuni.

Ég fór yfir það í ræðu minni að mér finnist þetta vera einn af mikilvægustu þáttunum okkar, ekki síst að ráðuneytin vinni saman að þessu. Ég er ekki endilega viss um að málaflokkurinn (Forseti hringir.) sem slíkur þurfi að kosta töluverða eða umtalsverða fjármuni úr ríkiskassanum heldur getum við náð umtalsverðum árangri með því að breyta vinnubrögðum okkar og innleiða þetta inn í flest okkar ferli og vinnu.