146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:39]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágæt ræðan hjá hv. þingmanni og margt gott í henni. Mig langar að spyrja: Nú er ég með tvær umsagnir sem koma úr nefndum hv. þingmanns. Í annarri segir, með leyfi forseta, í blálokin:

„Sem fyrr segir styður meiri hluti nefndarinnar tekju- og gjaldaramma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og hvetur til samþykktar hennar að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan hafa verið rakin.“

Þar var m.a. rakin nauðsyn til að setja meiri pening í umhverfismál og innviðauppbyggingu, í fjarskiptum og fleira. Og svo er í hinni umsögninni sem hv. þingmaður skrifar undir mjög svipað orðalag, með leyfi forseta:

„Meiri hluti utanríkismálanefndar beinir því til fjárlaganefndar að taka til skoðunar ofangreind atriði …“

Þar með talið uppbygging og geta varðandi sendiráð okkar í Brussel.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í ljósi þess að það er ekki nein breytingartillaga (Forseti hringir.) frá meiri hluta fjárlaganefndar, þykir hv. þingmanni að þetta hafi verið uppfyllt, það sem segir í nefndarálitum?