146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á að hnykkja á að þú áttir örugglega við meiri hluta nefndarinnar. (Gripið fram í: … gerði það. ) Já. Ég ætla nefnilega að tryggja að ég sitji enn þá í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] Ég kom einmitt líka inn á í ræðu minni að mér finnst mjög mikilvægt að við horfum með gagnrýnum augum á það sem hér er fyrir okkur lagt frá framkvæmdarvaldinu. Við förum ágætlega yfir það í þessu áliti hvers við viljum að horft sé sérstaklega til. Í því erum við ekki endilega að segja að það eigi bara að koma meiri fjármunir í þetta heldur viljum við að ráðherrann horfi til þess við fjárlagagerðina að áhersla sé lögð á þau verkefni sem þar eru undir. Í tilviki hv. umhverfis- og samgöngunefndar er málið öllu flóknara því að við erum með samgönguáætlun sem er ekki fullfjármögnuð. Það er öllum ljóst og hefur verið ljóst í alllangan tíma. Þar hefur ráðherra talað fyrir nýjum lausnum sem við styðjum heils hugar að séu ræddar frekar og skoðaðar.