146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég minni á að það var Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka, að mig minnir, sem var á móti því að fullfjármagna samgönguáætlun. En hvað um það. Nú vill svo til að ég er sammála hv. þingmanni um að margt sé til bóta í nýjum lögum um opinber fjármál en mjög margt þarf líka að laga sem hefur jafnvel orðið töluvert verra en áður.

Umsagnir eru náttúrlega til fjárlaganefndar en ekki hæstv. ráðherra. Þessa bænahneigð er víst búið að leggja af, nema hvað stofnanirnar koma enn til nefndanna, bara í staðinn fyrir að koma einu sinni í fjárlagagerð koma þær tvisvar í fjárlagagerð og svo fjármálaáætlunargerð, en þegar þetta gerðist með gamla laginu var alla vega ákveðið gagnsæi í að það var vitað hvaða stofnanir komu og betluðu og hversu mikið. Kjördæmapotið var alla vega fyrir allra augum. Þykir hv. þingmanni það skárra að þetta gerist allt saman inni í ráðuneytum þar sem það kemur aldrei fyrir augu okkar á þinginu né nokkurs staðar annars staðar?