146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson gerði menntamálin og fjármögnun þeirra í fjármálaáætluninni að umræðuefni sínu. Við höfum mörg farið yfir það í ræðum okkar í dag að í fjármálaáætlun komi skýrt fram að sú aukning sem er til þessara málefnasviða fari fyrst og fremst í steinsteypu. Við höfum gríðarlegar áhyggjur af stöðu Háskóla Íslands og háskóla á Íslandi sem eru vanfjármagnaðir. Á sama tíma er heimurinn að skreppa saman. Fólk fer á milli landa til að mennta sig og leita annarra starfa og Ísland er í harðri samkeppni við önnur lönd á mjög mörgum sviðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi t.d. lesið umsögn frá Samtökum iðnaðarins. Á bls. 3 kemur fram að samtökin hafi áhyggjur af því að verulegar brotalamir séu í söfnun og birtingu gagna um menntamál og mannauð og að ekkert sé að finna í fjármálaáætlun um að til standi að bæta úr því. Okkur er skylt, samkvæmt EES-samningnum, að framkvæma rannsóknir eins og t.d. — ég ætla ekki að segja það, þetta er á útlensku — en þetta kemur fram í umsögninni. Samtökin benda á að afar brýnt sé að bæta úr þessu. Þau leggja áherslu á að nemendum sé fjölgað sem velja verknám og starfsnám.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar vísbendingar fundið í fjármálaáætlun um að til standi að bæta úr þessu. Ég get ekki séð það, Samtök iðnaðarins gagnrýna þetta, þ.e. varðandi þá stefnu sem stjórnvöld ætli að taka á þessu sviði