146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanni andsvarið. Ég nefndi það í ræðu minni að aukning milli ára — það fara ótal milljarðar, liggur mér við að segja, í rannsóknir, þróun og nýsköpun á Íslandi. Það hefur náðst gríðarlegur árangur, ég tala nú ekki um fyrir tilstuðlan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Ég get nefnt það að þegar ég var að vinna sjónvarpsþátt fyrir nokkrum árum þá unnu 500 manns við 50 meðalstór nýsköpunarfyrirtæki, svona eins og risastórt álver, þannig að þetta skiptir okkur gríðarlegu máli. En þegar ríkisstjórn sér sér ekki fært að bæta við ár frá ári í þessu kröfuharða umhverfi nema 120 milljónum á ári, liggur við að það sé grátbroslegt, það er eiginlega besta orð yfir það.

Ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni um að taka þarf upp allt önnur vinnubrögð. Þessi ríkisfjármálaáætlun er gagnrýnisverð, ekki bara fyrir lágar upphæðir heldur líka að hafa ekki skýrari markmið miðað við tilgreindar fjárhæðir.