146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Já, borgarlínan er sögð vera einhvers staðar á milli 70 og 150 milljarðar. Það fer svo sem eftir því hvort menn nota léttlest, einhvers konar sporvagn, bíla eða strætóa. Sjálfkeyrandi bílar? Ég er nú ekki vel heima í þeim efnum en ég er vel heima í því sem snýr að eldsneytinu. Það skiptir öllu máli ef við erum að tala um umhverfismál hvers konar eldsneyti þessir sjálfkeyrandi bílar nota. Og hvort það verði rafbílar, það held ég að verði nú ekki endilega. Það er einmitt verið að athuga með sjálfkeyrandi bíla sem eru af þeirri kynslóð bíla sem við notum, þannig að ég tel svo sem ekki að það hjálpi mikið í umhverfismálum.

Svo megum við ekki gleyma því að einkabílar taka mikið pláss og viðhald gatna er þungur baggi, þannig að ég hef verið hallur undir borgarlínu út frá þessu. Þá kemur að því að ef maður ætlar raunverulega að taka upplýsta ákvörðun verður að sýna manni reikningsstykkið, það verður að búa til líkön þar sem dregnar eru inn þær stærðir sem ég er að tala um, viðhald gatna, breytingar á þeim, kostnaðurinn við borgarlínuna sjálfa, rýmiskostnaður og ótal slíkir hlutir sem gera að verkum að það verða kannski búin til tvö til fjögur líkön með þremur til fjórum verðmiðum og síðan er hægt að taka upplýstari ákvörðun um gagnsemi borgarlínunnar. Ég hef að vísu ekki setið fundi um borgarlínuna en ég hef reynt að lesa mér til um hana. En þetta er svona fyrsta tilraun til svars, hv. þingmaður.