146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta. Ég held það sé hárrétt sem þingmaðurinn bendir á, um mikilvægi þess hvaðan orkan kemur til að keyra bílana og þá væntanlega líka borgarlínuna. Það er eitt af því sem bent hefur verið á. Ef við horfum til Noregs, sem hefur að vísu verið mjög framarlega í að innleiða rafmagnsbíla, er alls ekki hugað nægilega að því að hvetja til þess að Íslendingar kaupi frekar rafmagnsbíla þótt við höfum hér mjög ódýra orku.

En eitt af því sem ég hef haft verulegar áhyggjur af — og ástæðan fyrir því að ég nefni það hér er að flokkur hv. þingmanns er í meiri hluta á sveitarstjórnarstiginu og getur þar af leiðandi væntanlega haft einhver áhrif þar á — er áherslan á að nota innviðagjöld við sölu á lóðum, sem myndi þýða enn hærra húsnæðisverð, sem ég held að við þurfum ekki á að halda, til þess að fjármagna þetta verkefni. Ég hef einmitt ekki séð það síðan í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um borgarlínuna þar sem menn horfa til þessarar framtíðarsýnar (Forseti hringir.) um breytta samgöngutækni. Ég hef verulegar áhyggjur af að hér sé hugsanlega verið að tala fyrir einhverju sem við munum standa frammi fyrir eftir 10–15 ár og telja að við höfum tekið rangar ákvarðanir.