146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:20]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa spurningu. Þessu er fljótsvarað. Jú, við vitum af því úr fjölmiðlum og okkar takmörkuðu þekkingu að öryggi tölvukerfa almennt, hvort sem það eru farsímar eða rafbílar, er ógnað. Við höfum hins vegar ekki rætt þetta það ég viti í umhverfis- og samgöngunefnd að neinu marki. Ég hef að vísu verið fjarverandi í heila viku, á Grænlandi, en ég þekki það ekki. Ég held að við höfum verið upptekin af ótal sem ég kalla stórum málum, nú geri ég ekki lítið úr þessu, en málum sem hafa komið á færibandi frá ríkisstjórn m.a. og reynt að afgreiða þau og við erum ekki einu sinni komin að rammaáætlun, hvað þá annað. Við höfum bara ekkert komist að þessu. En ég tek þetta einfaldlega sem jákvæða gagnrýni og tel að umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að hysja upp um sig. En þessa sér auðvitað ekki stað í ríkisfjármálaáætlun. Ég get ekki séð yfir höfuð að tölvuöryggismálum eða öðru slíku sé sinnt þar að einhverju marki þótt ekki veiti af.

En mig langar að nota örfáar sekúndur til að minna á að rafbílar verða sennilega aldrei eina lausnin í einkabílamálum Íslendinga eða rafknúin farartæki yfir höfuð. Það er metan og alkóhól og vetni og lífdísill, þetta mun allt koma til. Það verða alltaf til brunavélar sem geta notað þessar umhverfisvænu eldsneytistegundir. Við getum framleitt þetta sjálf meira eða minna. Og metan sömuleiðis, bæði úr sorphaugum og eins með því einfaldlega að búa til metan. Við getum í sjálfu sér einmitt með stuðningi ríkisins og aðstoð einkaaðila verið fullkomlega sjálfbær þegar kemur að öllu eldsneyti á, ég myndi segja bæði skip og bíla og jafnvel að hluta til flugvélar.