146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:23]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Það er vissulega rétt, það er kannski ekki gert mjög mikið af því að fara út í þessa sálma um netöryggismál almennt. Ég hef svolítið upplifað að þingmenn séu pínu hræddir við þetta málefni, það sé stórt og flókið. Nú meina ég þetta ekki sem gagnrýni á hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson heldur að ég held að þingmenn séu almennt í svipuðum sporum og þeir voru kannski gagnvart flóknum fjármálagjörningum og þess háttar fyrir hrun. Nú þorir enginn annað en að setja sig vel inn í þau mál. En nú erum við líka með svokallaða orkuskiptaáætlun sem hefur verið til umræðu hér. Sú áætlun gengur út frá því að það verði ákveðin ríkisaðstoð, niðurgreiðsla á virðisaukaskatti, á 9–15 þús. bifreiðum. Þegar ég sagði norskum kollegum okkar frá því á dögunum brugðust þeir við með því að flissa örlítið yfir skammsýni okkar. En er þetta ekki eitthvað (Forseti hringir.) sem við gætum reynt að passa betur upp á í einmitt svona fjármálaáætlun?