146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:25]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að formaður velferðarnefndar, sú sem hér stendur, hefur undanfarnar vikur verið að læra ný vinnubrögð og fóta sig á nýjum vettvangi, en það verkefni er ekki endilega alltaf mjög einfalt og oft hefur starfið verið annasamt. Eitt þeirra verkefna sem nefndinni var falið var að meta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022. Eins og fram hefur komið í umræðum um áætlunina var fastanefndum þingsins falið það verkefni og skrifaði í framhaldi nefndarálit. Áætlunin er í raun rammi 34 málefnasviða sem innihalda 100 málaflokka og segir til um þróun þess ramma næstu fimm árin. Í henni eru sett fram markmið sem okkur þingmönnum er ætlað að meta út frá aðgerðum sem lagðar eru fram í þessu plaggi. Í áætluninni stendur, með leyfi forseta:

„Í áætluninni eru sett markmið fyrir öll málefnasvið. Með þessu fyrirkomulagi er ætlunin að skapa sem skýrast samhengi milli faglegra markmiða og þeirra fjármuna sem varið er til einstakra málefnasviða.“

Í nefndinni lagði ég upp með að rýna þau markmið sem sett voru fram til að meta hvort þau væru mælanleg. Hlutverk nefndarmanna við þessa rýni var — og hér vil ég kannski rifja upp glærur frá fundi sem við sátum, margir þingmenn, um okkar hlutverk, um það hvað málefnið snýst og hvernig líta bæri á þessa áætlun sem stefnumið. Svo fór ég af stað með mína vinnu. Það hlutverk sem okkur var falið var að styðja umræðuna um framtíðarsýn málaflokksins, að skýra markmið og mælikvarða, að meta hvort markmið málaflokksins styður við framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðs og meta hvort forgangsröðun er rétt. Við mátum einnig hvort tímamörk aðgerða voru raunhæf, hvort mælikvarði styðji við markmiðin og hvort mælikvarðinn væri raunhæfur miðað við dagleg störf og stjórnsýsluna. Verkefnið var því býsna stórt. Ég hef verið að velta því fyrir mér, með því að hlusta á alla umræðu sem hér hefur farið fram, að við hefðum kafað djúpt og náð að ræða þessi markmið og mælikvarða af nákvæmni ef ég væri ekki enn í þessari vinnu hvað varðar mikilvæg og mörg málefnasvið sem falla undir velferðarnefnd. Ég hafði það á tilfinningunni að ég mundi ekki ræða um NPA í dag, ég mundi enn vera að kafa í þessum málum.

Verkefnið var býsna stórt miðað við þann skamma tíma sem við höfðum til vinnunnar. Það var hins vegar ekki hægt að bíða með þetta mat og nefndin fékk til fundar við sig eins marga gesti — við fengum 35 gesti til okkar og fjóra á símafund, ég fer yfir fundinn á eftir — og henni var frekast unnt en við hefðum vilja hafa mun lengri tíma. Ég veit að við höfum lært mjög mikið af þessu ferli og munum gefa okkur lengri tíma og breyta verklagi við ýmsa þætti að ári. Ég er meðvituð um að hér var ekki um að ræða fjárlögin. Ég var alltaf að minna mig á það því að samtöl fóru oft niður í kjölinn og ég þurfti að rifja aftur upp markmið og aðgerðir. Þetta var eingöngu umsögn til fjárlaganefndar. Ég leit á það sem hlutverk mitt að beina athugasemdum áfram til þeirra og líta á það sem forvinnu, því að vinnan með fjárlög myndi hefjast í haust og þar myndi ég ekki vilja vera eins óundirbúin og ég hef verið í þessu hlutverki.

Ég sá fyrir mér að vinnan sem hér væri verið að vinna mundi skila sér vel í vinnu okkar við fjárlagagerðina í haust. Ég sá það fyrir mér að bætt þekking mín hvað varðar þessi málefnasvið og málaflokka, og á þeim stofnunum sem undir þá heyra, myndi breyta mörgu í mínu ferli sem formaður þessarar nefndar og þingmaður. Sumir þeirra þátta sem við höfum séð að þarf að lagfæra eru þó til komnir vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi voru nú eftir áramótin þar sem ný ríkisstjórn hafði í gríðarlega mörg horn að líta og skamman tíma. Þá tek ég undir gagnrýni á framsetningu fjármálaáætlunar hvað varðar sundurliðun og skilgreiningar á þeim upplýsingum sem þar voru lagðar fram.

Margir þeirra gesta sem nefndin fékk til fundar við sig á meðan á vinnslu málsins stóð höfðu mun ítarlegri upplýsingar og greiningar á sínum eigin málaflokkum. Það gerði nefndinni erfiðara fyrir að taka afstöðu til þeirra. Ég vil lesa yfir nefndarálit frá meiri hluta í velferðarnefnd sem ég hef heyrt ýmis sjónarmið um og vildi koma okkar sjónarmiðum á framfæri.

Ég ætla að lesa þetta upp og spjalla á meðan. Umsögn meiri hluta velferðarnefndar:

„Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar frá 7. apríl sl. fjallað um málið. Í áætluninni er byggt á því að stjórnvöld fylgi fjármálaáætlun um opinber fjármál fyrir árin 2018–2022 sem byggð er á fyrirliggjandi fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022 og skilyrðum hennar.“ — Þetta er forvinna aftur.

Ég ætla að skipta þessu aðeins niður og segja um hvaða málefnasvið við vorum að fjalla. Það var sjúkrahúsþjónusta, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúss, hjúkrunar- og endurhæfingaþjónusta, lyf og lækningavörur, örorka og málefni fatlaðs fólks, málefni aldraðra, fjölskyldumál, vinnumarkaður og atvinnuleysi, húsnæðisstuðningur og lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Við umfjöllun málsins fengum við til okkar 35 gesti og fjóra á símafund. Og til að nefna það fengum við fólk úr ráðuneytinu, bæði heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra. Við tókum góðan tíma til að rýna vel í það sem þau settu fram. Við fengum fjölmarga gesti frá velferðarráðuneytinu, bæði af heilbrigðissviðinu og velferðarsviðinu. Við fengum gesti frá Sjúkratryggingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Landspítala, Öryrkjabandalaginu, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landssamtökum heilbrigðisstofnana, Þroskahjálp, Landssambandi eldri borgara, Íbúðalánasjóði, Vinnumálastofnun og gestir frá Sjúkrahúsinu á Akureyri voru með okkur á símafundi.

Eins og ég lýsti hér reyndum við eftir bestu getu að komast yfir fjölmörg málefnasvið og fengum ekki eingöngu embættismenn til okkar heldur líka samtök og álit frá samfélaginu.

Við tökum það fram í upphafi, almennt um áætlunina, að við styðjum við markmið fjármálaáætlunar. Ég ætla að taka fram að í nefndinni, þegar við fengum kynningu frá ráðuneytinu og ræddum áherslu og markmið, voru menn sáttir við þá leið ef litið yrði á það sem lagt væri fram hér sem stefnumótun. Hér eru málefni sem við ætlum að vinna með. Það var ekkert mikil gagnrýni á þá leið sem ætlunin er að fara. Þá er ég að tala þvert á flokka, um alla nefndarmenn.

Stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs fer til velferðarmála, það hefur verið sagt hér, og því er ljóst að málefnasvið velferðarnefndar eru gríðarlega stór og viðamikil. Í ljósi skamms frests fastanefndar þingsins til að skila umsögn um málefni fjárlaganefndar átti nefndin ekki kost á að kafa djúpt ofan í hvert málefnasvið fyrir sig. Það er greinilegt, og menn sjá það hér, að ég hafði svolítið samviskubit yfir því. Ég er kannski of viljug til að kafa djúpt í málin en upplifði að við hefðum ekki nægjanlegan tíma til þess. En við gerðum okkar besta.

Nefndin lagði engu að síður áherslu á nokkra þætti sem endurspegla umsögn hennar. Meiri hlutinn vill koma því á framfæri að æskilegt er að í framtíðinni komi fjármálaáætlun mun fyrr fram og að jafnan verði kveðið á um að hún komi fram eigi síðar en 1. mars hvert ár. Þá hefðu fastanefndir kost á lengri umsagnartíma og fengju tækifæri til ítarlegrar umfjöllunar um fjármálaáætlunina. Í nefndinni kom einkum fram gagnrýni á skýrleika í framsetningu áætlunar. Eins og ég nefndi áðan var stundum óþægilegt að fá gestina sem höfðu miklu meira vit á málaflokknum og stöðunni innan hans. Það gerði nefndinni erfitt fyrir í þeirri vinnu.

Meiri hlutinn tekur fram að skilgreina mætti betur fjárhæðir fyrir hvert málefnasvið. Ekki er ljóst hvaða fjárhæðir munu fara í hvaða verkefni og telur meiri hlutinn mikilvægt að fjárlaganefnd rýni betur í tölur og hvort þær aðgerðir sem eru settar fram í fjármálaáætlun séu framkvæmanlegar. Enn og aftur: Ég leit á það sem mitt hlutverk að beina áfram inn í fjárlaganefnd þeirri vinnu sem ég taldi að ég gæti ekki unnið nægilega vel. Það skorti tíma í þessi mál.

Þá telur meiri hlutinn að æskilegt sé að betur verði sundurliðað í fjármálaáætlun rekstrarkostnaður annars vegar og kostnaður við einstakar fjárfestingar í tiltekin málefnasvið hins vegar sem hefur hér verið sagt þvert á flokka. Þrátt fyrir framangreindar athugasemdir leggur meiri hlutinn áherslu á að hann hefur skilning á því að hér er verið að móta stefnu í málaflokknum en ekki fara ofan í hvert málefnasvið fyrir sig og ákveða nákvæm útgjöld. Þegar kemur að fjárlagagerð að hausti verður farið ítarlega ofan í tölur hvers málaflokks, sérstaklega með tilliti til þess.

Meiri hlutinn lýsir yfir ánægju með aukningu útgjalda til velferðarmála sem gert er ráð fyrir á tímabilinu. Við erum ánægð með að við erum að auka framlögin. Að mati meiri hlutans er sérstaklega mikilvægt að mörkuð verði heildstæð framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Velferðarnefnd er nú þegar búin að samþykkja tillögu um að það verði gert, stefna fyrir landið. Margir þættir spila þar saman sem munu hafa jákvæð áhrif á útgjöld til heilbrigðismála, einkum á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyfja og lækningavara og lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála.

Við töluðum um að þessi málefnasvið. Menn vilja sundurliða og segja: Það er ekki nægilega mikið hér, það er ekki nægilega mikið þar og ekki nægilega mikið í þetta. En þetta spilar allt saman. Þegar við erum að efla hluta af heilsugæslunni erum við að draga úr þjónustu sem sótt er til bráðamóttöku á Landspítalanum, en sú þjónusta er of mikið sótt. Það mun hjálpa, það styður. Eitt leiðir af öðru og við erum að leggja það til á öllum sviðum að í heildina munum við fara í rétta átt.

Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á lýðheilsu, forvarnir og eftirlit — það mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á málefnasvið er varðar heilbrigðisþjónustu — en saknar þó frekari sundurliðunar til þessara málaflokka. Meiri hlutinn hvetur fjárlaganefnd til að skoða það og kanna hvort unnt sé að sundurliða nánar hvaða fjárhæðir fara til þessara mála.

Ég sé að ég á bara sjö mínútur eftir. Það eru margar slíkar athugasemdir sem komu frá okkur þar sem það var ekki nægilega skýrt í áætluninni, þegar fram kom að ekki væri nóg sett í málaflokkinn, að skýringin var þetta samspil við lýðheilsu. Við vildum fá aðeins betri sýn á það hvaða áhrif það mun hafa.

Það er ekki hægt fyrir mig að standa hérna án þess að ræða hvað var rætt varðandi sjúkrahúsþjónustu. Þar var ágreiningur. Meiri hlutinn var almennt ánægður með áherslur og markmið sem sett voru fram í tengslum við málefnasvið sjúkrahúsþjónustu. Meiri hlutinn fagnar þeim meginmarkmiðum og aðgerðum sem hafa verið settar fram og telur að það sé vel skilgreint.

Ég ætla að fara, þetta er lítill tími, yfir fund okkar með Landspítala. Það fór ekki fram hjá neinum að við áttum opinn fund með Landspítalanum og það komu fram sjónarmið um þörfina á skýrari verkefnaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Fjármálaáætlun er á málefnasviði sem ekki er vel skilgreint, ekki er nægjanlega vel skilgreint hver ber ábyrgð á hvaða verkefni fyrir sig. Hér vorum við að ræða út frá McKinsey-skýrslu og á fundinum ræddum við áhyggjur okkar varðandi nýtingu og mönnun. Það er skilgreint einhvers staðar að 70% af fjárveitingu til Landspítala, ég man ekki hvað það er, hafi með laun að gera. Stór hluti af því er greitt í yfirvinnu en það er erfitt að koma með nákvæmar tölur yfir það hvað greitt er í yfirvinnu. Á ársfundi var sagt að 600 milljónir hefðu farið í yfirvinnu en annars staðar fara tölur yfir milljarð. Þetta þurfum við að takast á við. Við verðum að hafa einhverja áætlun. Við þurfum að geta unnið saman að því.

Á framangreindum fundum með Landspítala komu jafnframt athugasemdir um að við samanburð heilbrigðisþjónustu á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum hafi fjármálaráðuneytið notað gögn frá OECD sem byggist á ríkisreikningi landanna. Þá kom fram að almennt sé notaður svokallaður SHA-staðall (System of Health Accounts) sem komi fram í skýrslum OECD, Health at a Glance. Meiri hlutinn telur ekki ljóst hvers vegna fyrrnefnd gögn voru notuð til samanburðar í stað hinna síðarnefndu og beinir því til fjárlaganefndar að skoða það sérstaklega. Meiri hlutinn treystir því að fjárlaganefnd geti komist að viðeigandi niðurstöðu um hvaða gögn skuli nota við slíkan samanburð. Enn og aftur er athugasemdum okkar og áhyggjum beint til fjárlaganefndar, svo að væntanlega mun þetta skila sér þangað.

Ég hef þrjár mínútur eftir og ég vildi bara snerta á einum punkti sem er smáviðkvæmur hjá mér vegna þess að út á við hefur álit okkar einhvern veginn verið mistúlkað, með tilliti til bæði þingsályktunartillögu og fréttaflutnings.

Málefnasviðið örorka og málefni fatlaðs fólks:

Málefnasviðið örorka og málefni fatlaðs fólks skiptist í fimm málaflokka, þ.e. bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, málefni fatlaðs fólks, aðrar örorkugreiðslur og jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.

Meiri hlutinn fagnar því sérstaklega að jafna eigi mismunandi örorkubyrði almennra lífeyrissjóða frá árinu 2007 í samræmi við lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Jafnframt lýsir meiri hlutinn yfir ánægju sinni með fyrirætlanir um einfaldara, sveigjanlegra og gagnsærra örorkulífeyriskerfi almannatrygginga þar sem lagt verður til að bótaflokkar verði sameinaðir og að allar aðrar tekjur lífeyrisþega hafi sömu áhrif á fjárhæð bótanna án tillits til tegundar teknanna. — Þetta er tekið beint úr áætluninni.

Meiri hlutinn fagnar því að fram sé komið frumvarp sem lögfestir NPA enda er með því stigið gríðarlega mikilvægt framfaraskref. Hins vegar þarf að huga betur að útfærslu, fjármagni og aðkomu sveitarfélaga að henni. Einnig telur meiri hlutinn þörf á að hugað verði að starfsgetumati og starfsendurhæfingu öryrkja í áætluninni og hvaða fjármuni skuli leggja til þess. Ljóst er að fjölgun öryrkja á vinnumarkaði myndi leiða til minni útgjalda til málaflokksins. Meiri hlutinn leggur því til að fjárlaganefnd hugi sérstaklega að starfsgetumati og starfsendurhæfingu innan þessa málaflokks.

Það hefur verið gagnrýnt að ég og hv. velferðarnefnd teljum þetta vera sparnaðaraðgerðir. Það eru ekki okkar orð. Við teljum mikilvægt að fá betri upplýsingar um hvaða peningur fer í þessa aðgerð. Ljóst er að fjölgun öryrkja á vinnumarkaði myndi leiða til minni útgjalda til málaflokksins. En í töflunum fannst okkur skorta á útgjöld og við vildum fá skýringu. Auðvitað hefur það áhrif á tekjumörkun að fleiri eru á vinnumarkaði, minna fjármagn fer þá í það en við vildum vita hvaða peningar myndu fara í að láta þetta ganga upp og ganga rétt upp fólkinu í hag. Meiri hlutinn leggur því til að fjárlaganefnd hugi sérstaklega að starfsgetumati og starfsendurhæfingu innan þessa málaflokks. Þar áttum við við að huga þyrfti að því hvaða áhrif það hefði á hvað yrði lagt til þessa málefnis.

Ég á bara eina mínútu eftir og sé að ég get ekki farið dýpra í meira af því sem hér er. En mér fannst þetta mjög mikilvægt. Ég vil draga það fram að hér vorum við að líta á okkar vinnu með ábyrgð og með tilliti til þeirrar vinnu sem liggur fyrir hjá fjárlaganefnd í haust.