146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Nichole Leigh Mosty fyrir hennar ræðu en hún fór fyrst og fremst í velferðarmálin. Mig langar að spyrja sérstaklega um það sem hún sagði um sjúkrahúsþjónustu. Nú liggur fyrir að stór hluti af aukningunni í sjúkrahúsþjónustu fer í að byggja nýjan spítala, sem er gott markmið sem við hv. þingmaður erum sammála um, og ég spyr: Telur hv. þingmaður að með þessari áætlun sé komið til móts við kröfur Landspítalans um aukið rekstrarfé? Eða telur hv. þingmaður að gera þurfi betur? Hún veit að þetta var stærsta málið fyrir síðustu kosningar. Í öðru lagi langar mig að spyrja hvað hv. þingmanni finnst um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um að sett verði sérstök pólitísk stjórn yfir Landspítalann sem er auðvitað mjög óvenjulegt í opinberum rekstri í dag, hvort hún sé sammála þessari tillögu.