146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hún lýsir því að hún upplifi það að Landspítalinn sé í vörn, að stjórnvöld og Landspítalinn séu ekki sammála. Það er upplifun hv. þingmanns, upplifun sem við höfum tekið eftir líka. Enda er sagan á bak við fjárhagsstöðu Landspítalans löng. Hún er ekki bara frá því núna, hún er frá því að hagræðing hófst á spítalanum 2003. Staðan er líka sú að með því kerfi sem var samþykkt með lögum 2007, um sjúkratryggingar, var fjármögnun hins einkarekna heilbrigðiskerfis breytt þannig að hið opinbera kerfi hefur setið eftir. Hv. þingmaður spyr: Þarf einhver að stíga inn í það að bæta samskipti Landspítalans og stjórnvalda? Hv. þingmaður ætlar að svara mér hvað henni finnst um tillögu um stjórn. Er ekki bara stóra málið það að Landspítalinn hefur átt undir högg að sækja allt frá 2003, sem útskýrir þá varnarbaráttu sem hv. þingmaður lýsir hér í svari sínu?