146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég varð nú pínu hissa á þessu síðasta svari. Á þetta þá ekki við um allar stofnanir ríkisins ef við eigum að tala um einhver faglegheit? Ég hefði nú haldið að þeir sem sinna stjórnunarstörfum á Landspítalanum séu einmitt fagfólk. Auðvitað eru allar stofnanir í ákveðinni hagsmunabaráttu fyrir sínar stofnanir. Það er eðli málsins samkvæmt bara þannig. Mér finnst þetta því afar sérstakt. Þótt þarna sé um mikla fjármuni að ræða breytir það því ekki að mér finnst þetta lýsa svolitlu vantrausti á stofnunina.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þetta DRG-flokkunarkerfi. Það er verið að leggja til að farið verði eftir McKinsey-skýrslunni með því að nýta fjármuni. Telur þingmaður og formaður velferðarnefndar að Landspítalinn búi í raun við þá aðstöðu að geta (Forseti hringir.) byrjað að nýta sér DRG-flokkunarkerfið? Vegna þess m.a. að fráflæðisvandinn svokallaði er gríðarlega mikill og við höfum ekki leyst úr honum enn sem komið er.