146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðu hennar og að rekja þær breytingartillögur sem Samfylkingin leggur fram við þessa fjármálaáætlun sem við ræðum. Mér finnst það mikilvægt hvernig hv. þingmaður rökstuddi það að umgangast þurfi þetta mál af virðingu og sýna því þann sóma að leggja það til annars vegar hvernig bæta megi hlutina og hvernig megi afla fjár fyrir þá og hvernig eigi að ráðstafa því.

Ég varð mjög hugsi yfir þessu af því að við höfum rætt það í þessari umræðu og í dag að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki tekið mikinn þátt í umræðunni, hafa ekki komið mikið upp í ræðustól Alþingis til að færa rök fyrir máli sínu þótt þeir ýi að ýmsu í nefndarálitum sínum og umsögnum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég veit að hún hefur kafað mjög mikið ofan í og velt fyrir sér umgjörð opinberra fjármála. Nú erum við að fara í gegnum þetta ferli í fyrsta skipti þar sem ný ríkisstjórn leggur til fyrst fjármálastefnu og svo fjármálaáætlun, svo að lokum fjárlög, hvort þetta sé ekki hættulegt að í fyrsta skipti sem við förum í gegnum þennan pakka þá sé eins og þetta sé allt gert af léttúð, ýjað að því að það megi kannski auka hér, það þurfi að gera eitthvað öðruvísi, en engar formlegar breytingartillögur lagðar fram. (Forseti hringir.) Ég er farin að velta því fyrir mér hvar Alþingi muni standa í vinnubrögðum þegar allri þessari vegferð er lokið.