146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddný Harðardóttur kærlega fyrir hennar svar. Það væri óskandi að við hefðum meiri tíma, en eins og kom fram í lok ræðu þingmannsins þá höfum við hugsanlega tækifæri til að ræða þetta frekar þegar hún kemur hér upp aftur.

Ég get hins vegar ekki séð að það komi beint fram í svari þingmannsins hver rökstuðningurinn er fyrir þessum mælikvarða, meðaltalinu. Sérstaklega í ljósi þess að það liggja fyrir skýrslur strax eftir hrun, áður en það var farið að skera niður, þar sem bent var á að það væri ástæða til þess að fara í ákveðna hagræðingu á háskólastiginu. Við sjáum líka að við náum svipuðu hlutfalli háskólamenntaðra og t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Síðan til viðbótar þá tel ég að Háskóli Íslands, þrátt fyrir erfiðleikana eftir hrun, sé væntanlega einn af bestu litlu háskólunum í heimi. Þegar við horfum t.d. á birtar greinar og í raun alla þá mælikvarða sem menn nota um árangur í háskólastarfi þá erum við (Forseti hringir.) þarna með frábæran skóla. Ég hefði kannski viljað sjá einmitt í þessari fjármálaáætlun aukna áherslu á Háskóla Íslands frekar en dreifa kröftunum, því þar erum við svo sannarlega með (Forseti hringir.) úrvalsháskóla.