146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á sumum málasviðunum er svolítið misjafnt eftir ráðuneytum hvernig áætlanirnar eru settar niður. Við höfum kvartað undan því að gagnsæi væri ekki nógu mikið, ekki væri settur verðmiði á stefnuna alls staðar. Sums staðar er það gert. Þannig vinna náttúrlega ráðuneytin. Þau vinna í stefnumótuninni og hún á að koma inn í áætlunina og þar eiga auðvitað að birtast samþykktar stefnur í þinginu líka. Samgönguáætluninni sem var samþykkt fyrir þinglok 2016 og fundin var þverpólitísk leið til þess að samþykkja hana fyrir árið 2017 og 2018 var bara kippt úr sambandi. Ekki varð meiri hluti fyrir því í þinginu þegar verið var að samþykkja fjárlög fyrir árið 2017 að fjármagna áætlunina að fullu. Það finnst mér afleitt. Mér finnst afleitt þegar þingið er búið að hafa fyrir því að finna þverpólitískan samhljóm, tala við sveitarfélög og finna út úr hlutunum og setja saman áætlun og samþykkja. Það er sett til ríkisstjórnarinnar og henni falið að finna út úr því hvernig þetta geti gengið upp, þá komi hún til baka með tillögur um að gera það ekki. Þá er meiri hluti þingsins þannig stemmdur að hann er tilbúinn til þess að láta framkvæmdarvaldið reka ofan í sig sínar samþykktir. Mér fannst Alþingi setja niður við þetta. (Forseti hringir.) Ég vona að þar verði breyting á.