146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Til að gæta allrar sanngirni er ekkert óeðlilegt við það þótt þrír flokkar, eins og stjórnarflokkarnir, sem virtust vera ólíkir fyrir kosningar, geri málamiðlanir til að mynda stjórn. Það vakti þó athygli að einn flokkurinn fékk öll mál sín í gegn en hinir tveir beygðu sig fullkomlega í duftið. Gerðu með sér stjórnarsáttmála þar sem sársaukamörk þeirra birtust. Þótt þau hafi verið mishá þá trúði maður satt að segja að verkefnalista stjórnarinnar til 2020 myndi verða fylgt eftir. Tveimur mánuðum síðar birtist svo ríkisfjármálaáætlun til 2022, tveimur árum lengra inn í framtíðina en stjórnarsáttmálinn. Þá hefði maður nú ætlað að fyrrnefnda plaggið innihéldi öll markmið þess síðarnefnda og gott betur. En svo er ekki, frú forseti.

Strax í stjórnarsáttmálanum var byrjað að hlaupa frá kosningaloforðum, ekki síst Viðreisn og Björt framtíð. Þann 31. mars var svo ljóst að flokkarnir treystu sér ekki einu sinni til að standa við almennan, óskýran og loðmollulegan texta stjórnarsáttmálans, það rataði ekki allt þangað inn. Til að bíta höfuðið af skömminni gera þingmenn stjórnarinnar uppreisn, treysta sér ekki til að fjármagna fjármálaáætlunina, gefa henni falleinkunn, en ætla samt að samþykkja hana, líklega í trausti þess að þjóðin sætti sig við þrjú svikin loforð á einu ári og ráðið er að setja pólitíska „agenta“ yfir Landspítalann.

Hæstv. fjármálaráðherra. Hvað yrði það kallað ef foreldri í janúarmánuði lofaði barni sínu reiðhjóli, tveimur mánuðum síðar kæmi í ljós að það átti eiginlega við ís og þegar komið væri í sjoppuna þá meinti það eiginlega karamellu? Það væru kölluð svik, hæstv. fjármálaráðherra.