146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin sem nú situr er með eins manns meiri hluta og minni hluta atkvæða á bak við sig. Maður skyldi ætla að sú staða gerði hæstv. ríkisstjórn mjög meðvitaða um að hún þarf að vanda sig og hlusta í verkum sínum. Því verð ég að segja að það hefur komið mér á óvart eftir allt sem sagt hefur verið um breiða skírskotun og samtal og samráð, að við fáum í raun og veru ekki skýrt fram frá ríkisstjórninni hvert hún hyggst stefna í heilbrigðismálum hvað varðar rekstrarform heilbrigðiskerfisins. Það hefur verið erfitt að fá skýra sýn frá hæstv. ríkisstjórn. Hins vegar er stöðugt vitnað til þess að í stjórnarsáttmála sé talað um fjölbreytt rekstrarform í hinu og þessu.

Mig langar að benda hæstv. ríkisstjórn á að samkvæmt nýrri rannsókn aðhyllast Íslendingar að yfirgnæfandi meiri hluta félagslega rekið heilbrigðiskerfi, þ.e. heilbrigðiskerfi sem ekki er aðeins fjármagnað og skipulagt af hinu opinbera heldur líka þar sem hið opinbera á og rekur helstu rekstrareiningar. Félagslega rekið heilbrigðiskerfi, sem samkvæmt rannsóknum kemur best út hvað varðar aðgengi að þjónustu, með lægstan hlutfallslegan kostnað, og kemur best út hvað varðar lýðheilsu. Því ætti hæstv. ríkisstjórn að hlusta. Ríkisstjórnin ætti að hlusta eftir þeim rannsóknum sem sýna hvaða heilbrigðiskerfi virkar best. Hún ætti að hlusta eftir því að tæp 92% Íslendinga vilja meira fé inn í heilbrigðiskerfið, 86% vilja að sjúkrahús séu rekin af hinu opinbera og tæp 80% vilja að heilsugæslan sé rekin af hinu opinbera. Meiri hluti stuðningsmanna allra flokka tekur undir þessi sjónarmið.

Hæstv. ríkisstjórnir eiga auðvitað alltaf að hlusta. En hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki efni á að hlusta ekki.