146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef ekki hugmynd um hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera í útlöndum. Ég veit bara að hann er í burtu alla vikuna. Ég vona auðvitað að hann sé ekki að gera neitt af sér, öfugt við hæstv. forsætisráðherra sem brá sér á NATO-fund og lofaði þá allt í einu auknum peningum til hermála frá Íslandi. Þá voru til peningar. En þeir eru ekki til í heilbrigðiskerfið. Það er ekki meira að hafa í það en hægt að gusa einhverju í NATO án samráðs við þing og þjóð. Báðir þessir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra sem á svo mikið undir hér, ættu að sjálfsögðu að vera við umræðuna þannig að hægt væri að leggja fyrir þá spurningar og fá fram viðhorf þeirra, m.a. til nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar. Það er hárrétt hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannessyni að það er of seint að eiga þau orðaskipti við ráðherrana í haust. Þá eru fjárveitingar til málaflokkanna orðnar að hverju? Orðnar að sundurliðun (Forseti hringir.) í viðauka sem Alþingi getur ekki einu sinni flutt breytingartillögur við. Þessi umræða við ráðherrana þarf að fara fram núna.