146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta, ekki síst í ljósi þess að við erum í fyrsta sinn að brúka þetta fyrirkomulag, þ.e. lög um opinber fjármál og hvernig við framkvæmum þau. Það hefði verið þjóðráð að ráðherrar sætu hér fyrir svörum þótt ekki hefði verið gefinn til þess nema einhver tiltekinn tími. Ég held að eitt af því sem við þurfum að ræða í framhaldinu sé hvernig við ætlum að vinna þetta, hvort gefinn verði sérstakur tími með hverjum og einum ráðherra eða hvernig það nú verður.

Mér finnst meirihlutaþingmenn tala af léttúð um ríkisfjármálaáætlun eins og það verði ekkert mál í haust að breyta henni. Þetta sé bara áætlun, þetta séu ekki lög. Það er vissulega rétt, en við erum samt sem áður að tala um sama ramma fjármuna, það er ekki verið að auka fjármuni, þannig að stjórnarþingmenn þurfa líka að gera grein fyrir því sem þeir segja í meirihlutaáliti sínu og hvaða málaflokkur er aflögufær. Það hefur ekki komið fram. (Forseti hringir.) Þeir hafa ekki komið hér í andsvör við okkur til að segja: Þetta er ekkert mál, við getum reddað þessu, t.d. með framhaldsskólana með því að taka peninga hér, þá getum við sett þá þangað. En það hefur hvergi komið fram.