146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er virðingarvert hjá hæstv. ráðherra að taka þátt í umræðunni, mættu fleiri taka hann sér til fyrirmyndar. Ég hafði vonast eftir því að hæstv. ráðherra myndi þá rökstyðja hluti á sínu málasviði eins og það að stytta tímabil atvinnuleysisbóta eða draga jafnt og þétt úr húsnæðisstuðningi.

Mig langar að koma að því sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni og talaði um að það væri ódýrt að gagnrýna að ekki væri gert betur á ýmsum sviðum. Ég spyr á móti: Var ekki ódýrt að lofa og lofa fyrir kosningar en reynast svo ekki hafa vilja til að afla tekna til nokkurs skapaðs hlutar eftir kosningarnar eins og Viðreisn hefur komið í ljós að vera, púra hægri flokkur?

Ríkið hefur misst út, slakað út, 50–70 milljörðum kr. í traustum tekjustofnum á undanförnum árum. Þessi áætlun byggir ekki á að sækja eina einustu krónu til baka af því. Hún byggir á að hagvöxturinn eigi að búa til svigrúm til þess að láta fjárveitingar af nafnverði aukast. En allan tímann á hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu að lækka. (Forseti hringir.)Er ekki hægt að kalla það með réttu niðurskurð á velferðarkerfinu að stilla upp áætlun sem gerir ráð fyrir minnkandi og minnkandi (Forseti hringir.) sneið samneyslunnar út áætlunartímann? Það er raunhæfur mælikvarði (Forseti hringir.) á það hvaða vilji er til að leggja í þann málaflokk.