146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir annað en að þetta er að verða skemmtileg umræða. Þarna kom hægri maðurinn fram í mér, sagði hv. þingmaður. Ég viðurkenndi það fúslega fyrir kosningar að ég teldist örugglega til hægri krata. Ég hef alltaf aðhyllst ábyrga ríkisfjármálastefnu um leið og öflugt velferðarkerfi. Þegar talað er einmitt um þessa sveiflujöfnun ríkisfjármálanna þá er mjög mikilvægt að hafa í huga að sú fjármálastefna sem þessi ríkisstjórn leggur upp með er ríkisfjármálastefna góðæris, mikils uppgangs í efnahagslífinu. Það gefur algjörlega augaleið í mínum huga að ef hér myndi slá í bakseglin þá þyrfti að endurskoða þá ríkisfjármálastefnu. Hún er ekki fjármálastefna samdráttar í efnahagslífinu. Þá þyrfti að breyta verulega forgangsröðun og þeim ytri römmum sem þeirri stefnu yrði sett. Hún er sett til þess að styðja við hagstjórn á tímum mikils efnahagsuppgangs og stuðla að vaxtalækkunum og samkeppnishæfu umhverfi að öðru leyti til þess að tryggja að byrðar hagstjórnarinnar séu ekki bara bornar uppi af Seðlabankanum, sem við vitum að hefur aldrei gefið sérstaklega góða raun. Ég hafna því algjörlega að þarna sé verið að vísa á einhvern niðurskurð í velferðarkerfinu slái hér í bakseglin. (Forseti hringir.) Þvert á móti, það myndi augljóslega kalla á endurskoðun ríkisfjármálastefnu ef sú væri raunin.