146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:02]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Hvað varðar fæðingarorlofið er það alveg rétt, það er raunar mjög sláandi í þessu svari hversu mikill munur er á feðrum og mæðrum sem njóta hámarksgreiðslu og sýnir auðvitað það vandamál sem við eigum að glíma við hér á vinnumarkaðnum varðandi kynbundinn launamun og verulegan aðstöðumun kynjanna inn á vinnumarkaðinn. Það hefur í mínum huga alltaf verið mikilvægasta hlutverk fæðingarorlofsins að jafna stöðu kynjanna inni á vinnumarkaði, fyrir utan auðvitað hinn sjálfsagða rétt barns til samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum æviskeiðs. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að feður nýti sér fæðingarorlof ekki síður en mæður, eða báðir foreldrar í því samhengi, óháð tekjum. Það er besta jöfnunarleiðin sem við eigum til þess að tryggja það að barneignir, hinn sjálfsagði hlutur í lífi ungs fólks, séu ekki einhvers konar kyngreindur aðstöðumunur fólks á vinnumarkaði, eins var hér vissulega í eina tíð en hefur blessunarlega farið minnkandi. Hann er þó enn (Forseti hringir.) til staðar. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að hækka þessar hámarksfjárhæðir til þess að tryggja það að feður, (Forseti hringir.) sem enn eru mun tekjuhærri, eins og glögglega sést í þessu svari, nýti sér ekki síður sinn rétt.