146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:27]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins breytingartillögu hv. þingmanns í 1. minni hluta í fjárlaganefnd þar sem hún leggur til auknar tekjur ríkisins í gegnum skatta og eignatekjur upp á 334 milljarða og ýmis útgjöld, býr til nýtt málefnasvið númer 35, Ýmis útgjöld. Það er hvorki meira né minna en bara búið til nýtt málefnasvið. Þetta eru umtalsverðar hækkanir eins og nærri má geta. Ég fór aðeins að reikna í excel-skjali og leggja þetta saman. Í því sem ríkisstjórnin er að leggja fram í þessari fjármálaáætlun eru töluverðar hækkanir, prósentuhækkanir á milli ára, og eru þetta 4–7% á milli einstakra ára. Nú bætir hv. þingmaður töluvert í. Við sjáum þessar tölur rjúka upp. Þær verða samtals á milli 11 og 12,5% á milli ára. Það er alltaf hækkun á þessu bili, 11, 12, 12,5% yfir þetta tímabil.

Mig langar bara rétt að spyrja: Við fengum hér frá öðrum fjárlaganefndarmanni, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, innlegg þar sem hún skýrði umsögn sína í gær um hvernig ætti að standa að skattheimtunni og ná tekjunum fram. Í þessari breytingartillögu hv. þingmanns er þess ekkert getið hvernig eigi að ná þessum tekjum, sköttum og gjöldum inn til ríkisins. Væri hægt að fá betri skýringar á því? Og kannski helst: Mér sýnist að þetta sé að ná algerlega nýjum hæðum í íslenskri sögu á milli ára, sú skattheimta sem lögð er til á gjaldahliðinni, hvort hv. þingmanni finnist þetta þá vera í anda fjármálaáætlunar þegar við erum að ræða um agaða hagstjórn (Forseti hringir.) og slíka þætti.