146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði nú kannski fallið betur ef þingmaðurinn hefði verið í salnum eða heyrt það sem ég sagði því að ég er nefnilega búin að svara þessari spurningu. Þetta sýnir manni hvar meiri hlutinn er staddur, það á að reyna að láta það ná í gegn að við séum að leggja til auknar tekjur eða útgjöld.

Það er ekkert nýmæli. Fyrir kosningar lögðum við Vinstri græn fram ríkisfjármálaáætlun. Við sögðum frá því eins og ævinlega að það þyrfti að taka inn tekjur til að mæta þeim útgjöldum sem fyrirliggjandi eru. En við erum líka ábyrg og við leggjum til afgang, svo því sé haldið til haga. Það er ekki allt saman sett í útgjöld.

Við höfum ekki forsendur nema að litlu leyti. Eins og hv. þingmaður veit vantar gagnsæi í fjármálaáætlunina til þess að við getum brotið þetta niður með raunhæfum hætti. En við vitum þó og höfum hugmyndir um það, Vinstri græn, hvar við getum tekið auknar tekjur. Við getum tekið auknar tekjur af ríkasta fólki landsins til dæmis. Við getum tekið auðlegðarskatt, getum tekið aukinn fjármagnstekjuskatt, tekið kolefnisgjald, tekið inn sykurskatt. Það er víða hægt að ná í peninga, hv. þingmaður, til þess að mæta því. Og ég tel að landinn vilji aukna samneyslu en ekki niðurskurð á samneyslunni.

Ég spyr líka hv. þingmann til baka: Finnst honum það í lagi að samneyslan minnki á þessu fimm ára tímabili?

Ef hv. þingmaður meinar eitthvað með því að skólamálin fái að halda óskertu sínu framlagi, hvort sem er til háskóla eða að niðurskurðurinn gangi ekki í gegn í framhaldsskólanum, hvar ætlar hann að taka þá peninga? Það hefur ekki komið fram í meirihlutatillögu hv. þingmanns og meiri hlutans í fjárlaganefnd.

Þegar verið er að beina spurningum til okkar (Forseti hringir.) og slengja fram einhverjum prósentum þá er þetta raunhæft og ef við gerum þetta ekki á góðæristímum, hvenær í ósköpunum eigum við þá að gera þetta?