146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, þetta er ekki galin hugmynd. Það er galin hugmynd að fara í skattalækkanir á þessum tíma. Það segir m.a. peningastefnunefnd Seðlabankans. Það er galin hugmynd eins og gert var á síðasta kjörtímabili og á að halda áfram núna, að lækka skatta. Það er ekki skynsamlegt, hv. þingmaður. Alls ekki.

Að taka inn tekjur á móti útgjöldum er í lagi. En þegar menn ætla ekki að taka inn tekjur af því að það má ekki sækja peninga til þeirra sem eiga þá til þess að fjármagna það sem lofað var fyrir kosningar af því að það er í lagi að svíkja loforð sem verið er að gera hér, (ÓBK: Hvar ætlar þú að taka pening til að fjármagna það sem þú leggur til?) klárlega, það er verið að svíkja loforð, (ÓBK: Hvaða loforð?) og þetta felst í byggingum sem var (ÓBK: Hvaða loforð?) ákveðið að fara í meðal annars … (ÓBK: Hvaða loforð?) Fullt af loforðum, hv. þm. Óli Björn Kárason, þú gast komið í andsvar við mig en kaust að gera það ekki. (NF: Hvaða loforð?) Ég hef orðið. Það er fullt af loforðum sem hér er ekki verið að standa við og þess bera umsagnir merki, umsagnir sem koma frá meira og minna öllum aðilum segja það. Þið eruð ekki að standa við það sem þið sögðuð. Þið eruð ekki að standa við það í samgöngum. (Forseti hringir.) Þið eruð ekki að standa við það í heilbrigðismálum. Þessi fimm ára áætlun sýnir það ekki, herra forseti.